Olafur Arnalds - soil scientist - www.moldin.net
  • Moldin.net Ólafur Arnalds
  • Mold - Soils
    • Íslensk mold
    • The Icelandic soil
    • Jarðvegskort - Soil map of Iceland
    • Heimildir - References
  • The Soils of Iceland
    • Chapters - Abstracts
  • Ástand lands - Land condition
    • Ástandsritið
    • Loftslag og mold - rit
    • Að lesa og lækna landið
    • Land literacy
    • Heimildir - References
  • Rof, sandar og ryk - Erosion / Aeolian / Dust
    • Jarðvegsrof á Íslandi
    • Soil Erosion in Iceland
    • Dust prediction / rykspá
    • Sandarnir
    • The Aeolian Environment
    • Birds and dust
    • Erosion and Aeolian References
  • Nytjaland - AUI Farmland Database
    • About the database
    • Gróðurhula landsins
    • Nytjaland references
  • Frost
    • Ísnálar
  • Landnýting og ferðamál
    • Skógartröll
    • Beit, ástand og loftslag
    • Teigsskógur
    • Hugsjónafólk og náttúra
    • Almenningar
    • Stúlkan í skóginum
    • Jarlhettur og beitin
    • Lúpína í eyðifjörðum
    • Landmannalaugar
  • Sauðfé og beit
    • Beit, ástand og loftslag
    • Ljósglæta í þoku sauðfjárstyrkja
    • Heildargreiðslur
    • Á röngunni
    • Beit og ástand lands
    • Staða sauðfjárframleiðslu
    • Beit - Afneitun vanda.
  • Lífið / The life
    • Soil poems
    • Geislavirkni og dansandi leir / Dancing clay
    • Egg og öld vistheimtar
  • OA Skrif - Publications
    • Books and peer reviewed papers
    • Other publications, reports etc
  • Blogg - Blog
  • Um ÓA - About OA
    • CV
    • Ættfræðin - stutt

Andrá ársins í hlíðum Úlfarsfells

2/4/2015

0 Comments

 
Skrapp á Úlfarsfellið á skírdagsmorgunn í fræsingi.  Minntist þá greinar sem ég vann með vini mínum Guðmundi Jóhannessyni (myndir) og birtist í Ársriti Skógræktarfélagsins 2006.  Hér er hún:

VOR

Hefur þú gengið á Úlfarsfell árla vors þegar græn skíma kviknar í hlíðum fellsins?  Týra sem hörfar þó skjótt fyrir ágangi hélu og næðings þegar vetur konungur spornar við.   Á vordögum birtist fyrirheitna landið á daginn en á nóttunni gerir kuldinn áhlaup á lífríkið og leggur til gróandans með hvössum eggjum ísnála, svo angar nýs lífs visna uns sólin deigir frostið í dögun.  Víðirunni rumskar hátt í hlíðunum og býður umhverfinu byrginn, óblíðu veðurfari og óvæginni nýtingu um aldir.  Brum hans opnast, hann laufgast – það er aftur vært á fjallinu.  Beitin er horfin.  Grænn geisli vorsins nær fullum þrótti og tekur að varpa bjarma á umhverfið.

Hefur þú séð þegar vorsólin neytir aflsmunar í baráttu við hélu næturinnar svo hún bráðnar og vatnið rennur ofan í deigan svörðinn?  Vatnsaginn kemst ekki niður úr holklakanum sem enn leynist djúpt í moldu og veitir viðnám, staðfastur vörður vetrarins sem veit ekki að sumarið er komið.  Yfirborðið verður gljúpt yfirferðar, fjallið verður viðkvæmt og krefst aðgátar í umgengni. Hin minnsta atlaga særir svörðinn undum svo úr rennur, þegar vatnið tekur að leita sér undankomu því holklakinn hamlar írennsli.  Hefur þú gengið á Úlfarsfell og fundið til reiðinnar vegna þess að ökumenn hafa vélað fjallið, svikið náttúru þess og lostið það mörgum sárum?

Picture
SUMAR

Hefur þú gengið á Úlfarsfell að sumarlagi og séð ríkidæmi gróandans?   Hefur þú gengið upp hlíðarnar í hryssingslegum þokusudda og upplifað veðrabrigðin þegar kólgan víkur fyrir sól og logni,  þegar Gullna hliðið opnast og frjósöm heiðarlöndin breiða úr sér?   Á Íslandi er Paradís ekki aldingarður heldur logn og veðurblíða á fjallstindi.

Hefur þú séð sjálfsána birkihríslu laufgast í götunni?  Hún er tákn þeirrar náttúru sem eitt sinn var, trjágróðurs sem alltaf gat numið landið að nýju eftir sérhvert áfall, þegar hríslan bauð ótrauð hvers kyns flóðum, eldgosum, skriðum, eða langvarandi kuldakasti birginn og hafði ávallt betur.

Hefur þú skokkað upp fellið í kapphlaupi við tímann, hrósað sigri um stund, meðvitaður um að tíminn sigrar ­þó alltaf að lokum?  Eða arkað með hægð upp slakkann, kannað hvert smáatriði sem fyrir augu ber; steina, blóm, jarðlög og útsýni – og þér finnst tíminn lúta í gras.

HAUST

Fjallið fóstrar vinalega rjúpnafjölskyldu og hópurinn lifir um sinn í allsnægtum gróðurs og berja, en senn kemur veturinn.

Hefur þú séð veturinn læðast að hlíðum Úlfarsfells og sáldra frosti í svörðinn, svo moldin bifast og byltir sér, en steinarnir sitja fastir fyrir?  Leikur frostsins er í senn lifandi og háskalegur.  Gróðurinn hlýðir kalli, sölnar og býst til vetrar.  Viðkvæmur mosinn í vatnsósa sverðinum kveinkar sér í hvert sinn sem stigið er utan götunnar.  Frostið stingur ægifagran listvefnað með ísnálum á nóttunni sem trosnar í dögun.  Hin kalda hönd velur þær jurtir sem settar eru á til vetrar, en rífur upp annað kvikt sem ekki hefur náð að festa tryggilega rætur.

Hefur þú gengið á Úlfarsfell í dumbungsveðri og þoku að hausti og fundið hvernig bergið öðlast líf og talar til þín rómi alda?

VETUR

Hefur þú gengið á Úlfarsfellið um vetur?    Mjöllin hylur klungur fjallsins og auðveldar uppgöngu.  Á tindinum lætur skammdegið undan eitt andartak og rauður bjarmi roðar hvítan hjúpinn.

Hefur þú gengið á Úlfarsfell í bálviðri svo þú stendur vart í fæturna og gangan verður að glímu við máttarvöldin?  Hefur þú lagt á bakið þungar byrðar og gengið hægum skrefum á fellið í minningu förumannsins á leið um fjallaskörð til vers?   Verið illa búinn til ferðar og upplifað tilfinningu forfeðranna, sem nær allslausir héldu á heiðar í þúsund ár og tókust á við freistinguna að leggjast niður og renna saman við eilífðina – eða bíða vors.

Picture
0 Comments

Your comment will be posted after it is approved.


Leave a Reply.

    Ólafur Arnalds

    Náttúrufræðingur og prófessor

    Archives

    April 2015
    February 2015
    January 2015
    October 2014

    Categories

    All

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.