Olafur Arnalds - soil scientist - www.moldin.net
  • Moldin.net Ólafur Arnalds
  • Mold - Soils
    • Íslensk mold
    • The Icelandic soil
    • Jarðvegskort - Soil map of Iceland
    • Heimildir - References
  • The Soils of Iceland
    • Chapters - Abstracts
  • Ástand lands - Land condition
    • Ástandsritið
    • Loftslag og mold - rit
    • Að lesa og lækna landið
    • Land literacy
    • Heimildir - References
  • Rof, sandar og ryk - Erosion / Aeolian / Dust
    • Jarðvegsrof á Íslandi
    • Soil Erosion in Iceland
    • Dust prediction / rykspá
    • Sandarnir
    • The Aeolian Environment
    • Birds and dust
    • Erosion and Aeolian References
  • Nytjaland - AUI Farmland Database
    • About the database
    • Gróðurhula landsins
    • Nytjaland references
  • Frost
    • Ísnálar
  • Landnýting og ferðamál
    • Skógartröll
    • Beit, ástand og loftslag
    • Teigsskógur
    • Hugsjónafólk og náttúra
    • Almenningar
    • Stúlkan í skóginum
    • Jarlhettur og beitin
    • Lúpína í eyðifjörðum
    • Landmannalaugar
  • Sauðfé og beit
    • Beit, ástand og loftslag
    • Ljósglæta í þoku sauðfjárstyrkja
    • Heildargreiðslur
    • Á röngunni
    • Beit og ástand lands
    • Staða sauðfjárframleiðslu
    • Beit - Afneitun vanda.
    • Búvörusamningur
  • Lífið / The life
    • Soil poems
    • Geislavirkni og dansandi leir / Dancing clay
    • Egg og öld vistheimtar
  • OA Skrif - Publications
    • Books and peer reviewed papers
    • Other publications, reports etc
  • Blogg - Blog
  • Um ÓA - About OA
    • CV
    • Ættfræðin - stutt

Andrá ársins í hlíðum Úlfarsfells

2/4/2015

0 Comments

 
Skrapp á Úlfarsfellið á skírdagsmorgunn í fræsingi.  Minntist þá greinar sem ég vann með vini mínum Guðmundi Jóhannessyni (myndir) og birtist í Ársriti Skógræktarfélagsins 2006.  Hér er hún:

VOR

Hefur þú gengið á Úlfarsfell árla vors þegar græn skíma kviknar í hlíðum fellsins?  Týra sem hörfar þó skjótt fyrir ágangi hélu og næðings þegar vetur konungur spornar við.   Á vordögum birtist fyrirheitna landið á daginn en á nóttunni gerir kuldinn áhlaup á lífríkið og leggur til gróandans með hvössum eggjum ísnála, svo angar nýs lífs visna uns sólin deigir frostið í dögun.  Víðirunni rumskar hátt í hlíðunum og býður umhverfinu byrginn, óblíðu veðurfari og óvæginni nýtingu um aldir.  Brum hans opnast, hann laufgast – það er aftur vært á fjallinu.  Beitin er horfin.  Grænn geisli vorsins nær fullum þrótti og tekur að varpa bjarma á umhverfið.

Hefur þú séð þegar vorsólin neytir aflsmunar í baráttu við hélu næturinnar svo hún bráðnar og vatnið rennur ofan í deigan svörðinn?  Vatnsaginn kemst ekki niður úr holklakanum sem enn leynist djúpt í moldu og veitir viðnám, staðfastur vörður vetrarins sem veit ekki að sumarið er komið.  Yfirborðið verður gljúpt yfirferðar, fjallið verður viðkvæmt og krefst aðgátar í umgengni. Hin minnsta atlaga særir svörðinn undum svo úr rennur, þegar vatnið tekur að leita sér undankomu því holklakinn hamlar írennsli.  Hefur þú gengið á Úlfarsfell og fundið til reiðinnar vegna þess að ökumenn hafa vélað fjallið, svikið náttúru þess og lostið það mörgum sárum?

Picture
SUMAR

Hefur þú gengið á Úlfarsfell að sumarlagi og séð ríkidæmi gróandans?   Hefur þú gengið upp hlíðarnar í hryssingslegum þokusudda og upplifað veðrabrigðin þegar kólgan víkur fyrir sól og logni,  þegar Gullna hliðið opnast og frjósöm heiðarlöndin breiða úr sér?   Á Íslandi er Paradís ekki aldingarður heldur logn og veðurblíða á fjallstindi.

Hefur þú séð sjálfsána birkihríslu laufgast í götunni?  Hún er tákn þeirrar náttúru sem eitt sinn var, trjágróðurs sem alltaf gat numið landið að nýju eftir sérhvert áfall, þegar hríslan bauð ótrauð hvers kyns flóðum, eldgosum, skriðum, eða langvarandi kuldakasti birginn og hafði ávallt betur.

Hefur þú skokkað upp fellið í kapphlaupi við tímann, hrósað sigri um stund, meðvitaður um að tíminn sigrar ­þó alltaf að lokum?  Eða arkað með hægð upp slakkann, kannað hvert smáatriði sem fyrir augu ber; steina, blóm, jarðlög og útsýni – og þér finnst tíminn lúta í gras.

HAUST

Fjallið fóstrar vinalega rjúpnafjölskyldu og hópurinn lifir um sinn í allsnægtum gróðurs og berja, en senn kemur veturinn.

Hefur þú séð veturinn læðast að hlíðum Úlfarsfells og sáldra frosti í svörðinn, svo moldin bifast og byltir sér, en steinarnir sitja fastir fyrir?  Leikur frostsins er í senn lifandi og háskalegur.  Gróðurinn hlýðir kalli, sölnar og býst til vetrar.  Viðkvæmur mosinn í vatnsósa sverðinum kveinkar sér í hvert sinn sem stigið er utan götunnar.  Frostið stingur ægifagran listvefnað með ísnálum á nóttunni sem trosnar í dögun.  Hin kalda hönd velur þær jurtir sem settar eru á til vetrar, en rífur upp annað kvikt sem ekki hefur náð að festa tryggilega rætur.

Hefur þú gengið á Úlfarsfell í dumbungsveðri og þoku að hausti og fundið hvernig bergið öðlast líf og talar til þín rómi alda?

VETUR

Hefur þú gengið á Úlfarsfellið um vetur?    Mjöllin hylur klungur fjallsins og auðveldar uppgöngu.  Á tindinum lætur skammdegið undan eitt andartak og rauður bjarmi roðar hvítan hjúpinn.

Hefur þú gengið á Úlfarsfell í bálviðri svo þú stendur vart í fæturna og gangan verður að glímu við máttarvöldin?  Hefur þú lagt á bakið þungar byrðar og gengið hægum skrefum á fellið í minningu förumannsins á leið um fjallaskörð til vers?   Verið illa búinn til ferðar og upplifað tilfinningu forfeðranna, sem nær allslausir héldu á heiðar í þúsund ár og tókust á við freistinguna að leggjast niður og renna saman við eilífðina – eða bíða vors.

Picture
0 Comments

"Jarðvegsfræðingurinn"

25/2/2015

 
Þorbergur Steinn Leifsson hefur sett hér inn einar þrjár athugasemdir um grein mína um orkusölu til útlanda.  Það gerði hann einnig með skrifum í Fréttablaðið þegar greinin mín kom út  og eru athugsemdirnar hans eru að stofni til sú grein. Ég sá enga ástæðu til að svara honum þá.  Langar að benda honum á að auðvelt er að setja tengla í slíkar greinar í athugasemdum og óþarfi að kópíera þær inn í athugasemdakerfi.  Ég hef verið erlendis undanfarið og ekki haft tök á að sinna þessum athugasemdum fyrr en nú.  

Þess ber að geta að athugasemdir á þessum síðum mínum falla niður að einhverjum tíma liðnum.  Síðan www.moldin.net er ný og ég á eftir að taka ákvörðun um hvernig ég muni haga þessu kerfi í framtíðinni.  

Tónninn í athugasemd (grein) Þorbergs er nokkuð hofmóðugur, en sem betur fer eru flestir þeir verkfræðingar sem ég þekki og fjalla um virkjanir, og þeir eru margir, lausir við slíka framkomu.  Hann gefur til kynna að “Hinn ágæti jarðvegsfræðingur” sé “leikmaður”.  Og að ekki sé “skrítið þó leikmönnum skriki fótur og því umræðan  um orkumál” sé “almennt mjög ómarkviss og lítt upplýsandi og engar tæknilegar forsendur liggja fyrir um þetta tiltekna mál”.  Gott að Þorbergur treystir sér til að vita svona miklu betur án þess að “neinar tæknilegar forsendur liggi fyrir um þetta tiltekna mál”. 

Þeir sem árum saman hafa hrærst innan Rammaáætlana um virkjanakosti (þeirra á meðal ég), sem í raun er gríðarlega mikil en oft vanþökkuð vinna við mat á virkjanakostum, með tilheyrandi upplýsingamiðlun og fræðslu, lestri skýrslna um verkfræði, náttúrfræði, umhverfisáhrif, hagræna þætti og áhrif á landnýtingu, ferðum á vettvang og umræðum á meðal nefndarmanna sem samanlagt hafa breiðan faglegan bakgrunn: þetta hljóta allt að vera leikmenn eða hvað?

Vissulega borga álverin lítið fyrir hverja einingu rafmagns, það er slæmt og það er gjaldgengt viðhorf að betra hefði verið að sleppa mörgum þeim virkjunum sem selja áliðnaðinum rafmagn.  Uppbygging og sala á rafmagni til þeirra fóru fram á mjög svipuðum nótum og leiknar eru við kynningu á möguleikanum til sölu á rafmagni til útlanda.  En það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn: málið snýst ekki bara um orkusölu og viðskiptabækur orkuseljenda heldur þá atvinnu og hagsæld sem orkusalan skapar í tekjum af atvinnurekstri við “úrvinnslu orkunnar”.  Hér á landi.  Um 5000 manns hafa atvinnu af áliðnaði hérlendis (www.samal.is) og segja má að þær verksmiðjur eigi stóran þátt í uppbyggingu verkfræði sem atvinnuvegar á Íslandi, sem er stór og blómlegur.

Enginn hefur hingað til treyst sér til að andmæla því að hundur til Evrópu veldur hækkun raforkuverðs til almennings (nr. 2).  Deilur og óvissa standa um meint orkutap á svo löngum sæstreng (nr. 3).  Kannski er það ekki nema 10-20%.  Það er þó ekki mergur málsins, því áhættan er gríðarleg í svona stóru verkefni, áhætta sem íslenskur almenningur þarf hugsanlega að taka á sig.  

Þorbergur hefur ekki bent á hvaða virkjanakostir það eru sem á að nýta til raforkusölu til útlanda (nr 4).  Hvað þá hver umhverfiskostnaðurinn verði, virkjanir, línulagnir (þetta er ansi mikil orka, gott að hafa línuna frá Fljótsdal til Reyðafjarðar í huga), breytingar á árfarvegum o.m.fl. sem þarf að vega og meta á móti.  Það er vert að hafa í huga að ferðamennska sem byggir á íslenskri náttúru er trúlega orðin stærsti atvinnuvegur landsins og mun, með áframhaldandi þróun, bera höfuð og herðar yfir aðra atvinnuvegi, m.a. þá er byggja á orkuvinnslu í íslenskri náttúru. 

Sú staðhæfing að gott sé að eiga orku til uppbyggingar á Íslandi stendur óhögguð, m.a. fyrir fiskiskipaflotann, en líka aðra fjölbreytta atvinnustarfsemi, t.d. gagnaver o.m.fl. (nr. 5).  Hárrétt hefur reynst að sífellt fleiri banka á dyrnar og óska eftir orku sem notuð yrði hér á landi – en orkan virðist bara ekki vera tiltæk.

Vissulega nota menn ýmis brögð við framleiðslu og sölu á raforku í Evrópu til að skapa hagnað(nr. 6).  En það breytir litlu um það sem hér er sagt.

Þorbergur nefnir að annmarkar kunni að vera á útflutningi rafmagns um sæstreng, en er þó viss um að almenningur á Íslandi muni græða mikið á fyrirtækinu.  Nú er það svo að engin trygging er fyrir því að hagnaðurinn, verði hann einhver, lendi í vasa almennings, það hefur hagsaga þessarar aldar greypt í minni okkar. 

Rauðibotn og Hólmsárlón

18/2/2015

 
Picture





Rauðibotn eru meðal fegurstu náttúruminja landsins.  Hann er hluti Eldgjár-sprungunnar, sem nær allt frá Mýrdalsjökli langleiðina að Vatnajökli.  Eldgjárgosið (u.þ.b. 934) er mesta gos sem orðið hefur á landinu á sögulegum tíma, umtalsvert stærra en Skaftáreldar.  Gosið hafði líklega áhrif á veðurfar um gjörvalt norðurhvel jarðar.  Ummerki um gosið eru mjög áberandi um allt svæðið norðaustan Mýrdalsjökuls, m.a. gríðarlegar eldsprungur, gjóskulög í jarðvegi og sandur.  Gossprungan sjálf er einstök náttúrusmíð, sem án nokkurs vafa teljast meðal merkilegustu náttúrufyrirbrigða landsins, vegna þess hve sérstæð hún er, fegurðar, en ekki síður vegna gildis þessa gríðarlega mikla eldgoss í jarðsögu landsins.  Eldgjá (öll gossprungan) ætti án nokkurs vafa að njóta ýtrustu verndar.  Eldgjá er mun lengri en sá hluti sem flestir líta augum frá Fjallabaksleið nyrðri inn að Gjátindi.  Sá hluti sem liggur suðvestur frá Fjallabaksleið er ekki síður fallegur, en þar koma fáir.  Og svo er það Rauðibotn við Fjallabaksleið syðri.  Þar rennur Hólmsá frá Torfajökulssvæðinu í gegnum gosmyndanirnar frá Eldgjárgosinu í fallegum fossum og flúðum og umhverfið er hreint út sagt einstakt.  Gossprungan stíflaði Hólmsá (ef ég skil rétt) svo að myndarlegt vatn myndaðist þar að baki: Hólmsárlón.  Þar sem þeir eru allt of fáir sem hafa litið þessa dýrð augum eru hér nokkrar myndir frá svæðinu.

Nú eru uppi hugmyndir um að nýta Hólmsárlón sem uppistöðulón fyrir virkjun í Hólmsá.  Við slíka ákvarðanatöku þarf að taka afstöðu til þess hvort verjanlegt er að hrófla við sjálfri Eldgjá, einhverri merkilegustu eldsprungu sem fyrirfinnst á jörðinni.  Og náttúruundrinu Rauðabotni og þeim fossum og flúðum sem þar er að finna.

Á myndunum sjást gosmyndanir (fólk gefur mælikvarða á myndinni hér næst  fyrir neðan ef myndin er stækkuð), Hólmsárlón (frá Rauðabotni og líka frá Torfajökli), en neðst er horft til Mælifells og Mýrdalsjökuls frá Rauðabotni.

Picture
Picture
Picture
Picture

Hagavatn og virkjun

26/1/2015

 
PictureHagavatn og Jarlhettur. Lænur sem renna út í Hagavatn sjást vel sem og virkasta uppfokssvæðið.
Uppfok getur orðið á öllum sandsvæðum landsins, sem eru samtals 15-20 000 km2.  En þó eru nokkur svæði langsamlega mikilvirkust, eins konar heitir reitir („dust hotspots“) en þau eru líklega samtals innan við 1000 km2.  Slík svæði er einkum að finna við jökuljaðra þar sem árlænur flæmast um og skilja eftir sig fíngert laust set, en einnig t.d. þar sem jökullón eða vötn hafa breytilegt vatnsyfirborð (t.d. Hálslón þegar lítið er í lóninu).  Stærsta og mikilvirkasta uppfokssvæði landsins við jökuljaðar er líklega Dyngjusandur, sem nú er að hyljast nýju hrauni að stórum hluta (sjá færslu undir „Líf og starf“ á þessari síðu).  Önnur slík svæði eru t.d. hlutar Mýrdalssands og Skeiðarársands, Mælifellssandur og Hagavatnssvæðið. 

Hagavatnssvæðið er meðal virkustu uppfokssvæða á landinu.  Þar fauk áður mikið úr núverandi vatnsborði Hagavatns, sem áður var þó miklu stærra til vesturs (Sandvatn hið forna).  Vestan við Hagavatn renna nú jökullænur á leirum til austurs út í Hagavatn.  Frá þessum leirum er virkasta uppfokið nú um stundir, sem og stundum frá vatnsborði Hagavatns.  Landið er fremur flatt, sem veldur því að lænurnar flæmast vítt um landið.

Sandur berst til suðurs frá þessu svæði, alla leið suður á Rótarsand, meir en 16 km leið.  Á leið sandsins týnist fínasta efnið (ryk), en grófari sandurinn heldur leið sinni áfram undan þurrum norðan stormum, en þó stundum í aðrar áttir þegar landið er sæmilega þurrt og vindstyrkurinn er mikill.  Fanney Ósk Gísladóttir o.fl. hafa m.a. rannsakað flutning sandsins á þessari leið.  Ekki eru nein ummerki um að sandur sé að berast áfram frá Rótarsandi, en mikið vantar á rannsóknir til að spá fyrir um þróun sandfoksins í framtíðinni á þessu svæði.  Ekki verður þó séð að samfelldu gróðurlendi stafi nú ógn af þessu foki, hvað sem síðar verður.

Mikið ryk berst út yfir Suðurland í afmörkuðum sandstormum frá Hagavatns-svæðinu, sem sést m.a. glögglega á gervihnattamyndum.  Hugsanlegt er að styrkur rykefnanna sé þá langt yfir heilsuverndarmörkum á leið foksins meðan á stormunum stendur.  Þetta þarf að rannsaka.

Ljóst er einnig að þessi sandflutningur kemur í veg fyrir sjálfgræðslu á sandsvæðunum sunnan Langjökuls.  Á hitt ber einnig að líta að þessir sandflutningar eru náttúrufyrirbrigði sem hafa mikið náttúrufræðilegt gildi.  Áfokið stuðlar ennfremur að frjósemi jarðvegs á Suðurlandi og Suðvesturlandi og hefur hugsanlega áburðaráhrif á hafsvæðin við Suðvesturland.  En að þessu leiti vantar líka mikið á haldgóða þekkingu.

Áhrif stíflu
  • Breytingar á vatnsborði Hagavatns getur haft gríðarlega mikil áhrif á svæðið. Aðeins örlítil vatnsborðslækkun á hugsanlegu lóni að vetri/vori stóreykur hættu á foki (þegar snjólaust er).  Örlítil miðlun getur því verið ávísun á meiri vandræði, meira uppfok o.s.frv. en nú er á svæðinu.
  • Jökullænurnar sem nú renna í Hagavatn munu trúlega fljótt mynda aurkeilu út í vatnsborðið og þar geta skapast veruleg fokvandræði.
  • Með tímanum, eftir því sem aurkeilan lengist, eykst fokið og verður mögulega meira en nú er (ennþá minni halli í landinu.
  • Með lóni breytast aðstæður sunnan Hagafellsjökla.  Fokið gæti hugsanlega færst að hluta meira vestur fyrir Þórólfsfell og Hlöðufell (þar eru einmitt ummerki um fok frá tímum Sandvatns hins forna, en nú er land að gróa upp vestan Hlöðufells.  Þá gæti tjón orðið meira en ef ekkert er gert.
Það er talað um rennslisvirkjun á svæðinu, en þetta er jökulvatn og rennsli er lítið á vetrum.  Lítil orka verður framleidd á svæðinu á vetrum án miðlunar.  En sem fyrr sagði er miðlun hugsanlega ávísun á mjög aukið fok svæðinu.
Því er í raun fráleitt að taka nokkra ákvörðun um hugsanlega virkjun á Hagavatnssvæðinu fyrr en allar forsendur liggja fyrir.  Það gera þær ekki núna.

Gefnar eru heimildir um fok á Íslandi, þ.a.m. á Hagavatnssvæðinu á síðunni "Rof, sandar og ryk".  Á myndinn hér að neðan (frá Fanney Ósk Gísladóttur o.fl.) sýnir sandleiðina frá Vestari Hagafellsjökli á rótarsand.

Picture

Einkennilegur draumur um raforkusölu til Evrópu

8/10/2014

4 Comments

 
Mig langar, að gefnu tilefni, til að byrja á að pósta hér grein frá árinu 2012, um draumfarir manna um að selja rafmagn til Bretlands.  Forsendur hafa ekki breyst,  nema að ljóst er að það verður vaxandi krafa á að selja Landsvirkjun.  Semsagt einkavæða rafmagnssöluna.  Auk þess hefur breska heimsveldið sýnt afar hæpið aterli í garð annarra þjóða, t.d. Íslands, ef því dettur í hug að treysta þurfi "hagsmuni" Sameinaða konungsveldisins.  Hundur til Bretlands býr til dæmigerða svona hagsmuni.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2 mars 2012:

Þær eru margvíslegar draumfarirnar um bissness og nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi. Einn sérkennilegasti draumurinn er að flytja út rafmagn frá Íslandi til Evrópu með streng. Seint verður sú hugmynd talin meðal þeirra vænlegustu til að stuðla að aukinni hagsæld á Íslandi. Fyrir því eru nokkrar ástæður og sem dæmi má nefna:

1. Það er afskaplega úreltur hugsunarháttur að flytja út auðlindir landsins í heildsölu með þessum hætti í stað þess að nýta orkuna til að auðga atvinnulífið heima fyrir. Nýlendutíminn er liðinn – er það ekki?

2. Við samtengingu íslenska kerfisins við Evrópumarkað verða íslenskir neytendur í samkeppni á Evrópumarkaði um rafmagnið: rafmagn til almennings á Íslandi hækkar því verulega í kjölfarið: lífskjör þorra fólks munu beinlínis versna. Það er nú varla göfugt markmið?

3. Mikil orka tapast við orkuflutning með þessum hætti. Það er ekki í anda nútímans, þegar mikilvægast er að draga úr orkusóun, að tapa stórum hluta orkuframleiðslunnar við flutning hennar. Skynsamlega er að nýta hana með öðrum hætti nærri framleiðslustaðnum.

4. Það er staðreynd að sú orka sem menn ásælast í þessum tilgangi er einfaldlega ekki til. Síðasta mögulega vatnsaflsvirkjunin af stærðargráðu Þjórsárvirkjana er Skatastaðavirkjun í Skagafirði. Óljósara er um mögulega orku háhitavirkjana, en þó augljóst að sátt getur aldrei náðst um að flytja rafmagnið út, til þess er umhverfiskostnaður á háhitasvæðum allt of hár. Þessi orkuskortur er vitaskuld nokkuð alvarlegur hængur á ráðagerðinni.

5. Jarðefnaeldsneyti verður æ dýrara eftir því sem gengur á forðann á heimsvísu. En eftirspurnin vex örum skrefum. Um leið margfaldast mikilvægi annarra orkugjafa. Rafmagn verður mögulega raunhæfur kostur í samgöngum, fljótlega á bílaflotann og síðar til að mæta orkuþörf skipastólsins í einhverjum mæli. Íslendingar þurfa að eiga sinn forða til að nýta í samgöngum eftir því sem þessari þróun fleygir fram. Það er vitaskuld mun betri kostur en sala með „hundi" til Evrópu.

6. Með hækkandi orkuverði opnast sífellt nýir og fjölbreyttari möguleikar til nýtingar á orku á Íslandi og um leið eykst framleiðni orkusölunnar til handa íbúum landsins. Sala á orkunni með streng til Evrópu eyðileggur beinlínis slíka möguleika. Svona eins og að flýta sér að losa sig við timbrið áður en byrjað er að reisa húsið. Hefur það verið gert áður?

Sú orka sem unnt væri að flytja til Evrópu er svo lítil að hún skiptir engu fyrir markaðinn í Evrópu. Eins konar kertaljós er tírir á undir flóðljósum breiðstrætisins. Mikilvægara er að nýta orku Íslendinga til hagsældar heima fyrir. Orkusala með streng til Evrópu er í raun galin hugmynd í samanburði. Hvenær fer að bóla á „hinu nýja Íslandi" í draumi athafnamannsins?

4 Comments

    Ólafur Arnalds

    Náttúrufræðingur og prófessor

    Archives

    April 2015
    February 2015
    January 2015
    October 2014

    Categories

    All

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.