
Hagavatnssvæðið er meðal virkustu uppfokssvæða á landinu. Þar fauk áður mikið úr núverandi vatnsborði Hagavatns, sem áður var þó miklu stærra til vesturs (Sandvatn hið forna). Vestan við Hagavatn renna nú jökullænur á leirum til austurs út í Hagavatn. Frá þessum leirum er virkasta uppfokið nú um stundir, sem og stundum frá vatnsborði Hagavatns. Landið er fremur flatt, sem veldur því að lænurnar flæmast vítt um landið.
Sandur berst til suðurs frá þessu svæði, alla leið suður á Rótarsand, meir en 16 km leið. Á leið sandsins týnist fínasta efnið (ryk), en grófari sandurinn heldur leið sinni áfram undan þurrum norðan stormum, en þó stundum í aðrar áttir þegar landið er sæmilega þurrt og vindstyrkurinn er mikill. Fanney Ósk Gísladóttir o.fl. hafa m.a. rannsakað flutning sandsins á þessari leið. Ekki eru nein ummerki um að sandur sé að berast áfram frá Rótarsandi, en mikið vantar á rannsóknir til að spá fyrir um þróun sandfoksins í framtíðinni á þessu svæði. Ekki verður þó séð að samfelldu gróðurlendi stafi nú ógn af þessu foki, hvað sem síðar verður.
Mikið ryk berst út yfir Suðurland í afmörkuðum sandstormum frá Hagavatns-svæðinu, sem sést m.a. glögglega á gervihnattamyndum. Hugsanlegt er að styrkur rykefnanna sé þá langt yfir heilsuverndarmörkum á leið foksins meðan á stormunum stendur. Þetta þarf að rannsaka.
Ljóst er einnig að þessi sandflutningur kemur í veg fyrir sjálfgræðslu á sandsvæðunum sunnan Langjökuls. Á hitt ber einnig að líta að þessir sandflutningar eru náttúrufyrirbrigði sem hafa mikið náttúrufræðilegt gildi. Áfokið stuðlar ennfremur að frjósemi jarðvegs á Suðurlandi og Suðvesturlandi og hefur hugsanlega áburðaráhrif á hafsvæðin við Suðvesturland. En að þessu leiti vantar líka mikið á haldgóða þekkingu.
Áhrif stíflu
- Breytingar á vatnsborði Hagavatns getur haft gríðarlega mikil áhrif á svæðið. Aðeins örlítil vatnsborðslækkun á hugsanlegu lóni að vetri/vori stóreykur hættu á foki (þegar snjólaust er). Örlítil miðlun getur því verið ávísun á meiri vandræði, meira uppfok o.s.frv. en nú er á svæðinu.
- Jökullænurnar sem nú renna í Hagavatn munu trúlega fljótt mynda aurkeilu út í vatnsborðið og þar geta skapast veruleg fokvandræði.
- Með tímanum, eftir því sem aurkeilan lengist, eykst fokið og verður mögulega meira en nú er (ennþá minni halli í landinu.
- Með lóni breytast aðstæður sunnan Hagafellsjökla. Fokið gæti hugsanlega færst að hluta meira vestur fyrir Þórólfsfell og Hlöðufell (þar eru einmitt ummerki um fok frá tímum Sandvatns hins forna, en nú er land að gróa upp vestan Hlöðufells. Þá gæti tjón orðið meira en ef ekkert er gert.
Því er í raun fráleitt að taka nokkra ákvörðun um hugsanlega virkjun á Hagavatnssvæðinu fyrr en allar forsendur liggja fyrir. Það gera þær ekki núna.
Gefnar eru heimildir um fok á Íslandi, þ.a.m. á Hagavatnssvæðinu á síðunni "Rof, sandar og ryk". Á myndinn hér að neðan (frá Fanney Ósk Gísladóttur o.fl.) sýnir sandleiðina frá Vestari Hagafellsjökli á rótarsand.