Þess ber að geta að athugasemdir á þessum síðum mínum falla niður að einhverjum tíma liðnum. Síðan www.moldin.net er ný og ég á eftir að taka ákvörðun um hvernig ég muni haga þessu kerfi í framtíðinni.
Tónninn í athugasemd (grein) Þorbergs er nokkuð hofmóðugur, en sem betur fer eru flestir þeir verkfræðingar sem ég þekki og fjalla um virkjanir, og þeir eru margir, lausir við slíka framkomu. Hann gefur til kynna að “Hinn ágæti jarðvegsfræðingur” sé “leikmaður”. Og að ekki sé “skrítið þó leikmönnum skriki fótur og því umræðan um orkumál” sé “almennt mjög ómarkviss og lítt upplýsandi og engar tæknilegar forsendur liggja fyrir um þetta tiltekna mál”. Gott að Þorbergur treystir sér til að vita svona miklu betur án þess að “neinar tæknilegar forsendur liggi fyrir um þetta tiltekna mál”.
Þeir sem árum saman hafa hrærst innan Rammaáætlana um virkjanakosti (þeirra á meðal ég), sem í raun er gríðarlega mikil en oft vanþökkuð vinna við mat á virkjanakostum, með tilheyrandi upplýsingamiðlun og fræðslu, lestri skýrslna um verkfræði, náttúrfræði, umhverfisáhrif, hagræna þætti og áhrif á landnýtingu, ferðum á vettvang og umræðum á meðal nefndarmanna sem samanlagt hafa breiðan faglegan bakgrunn: þetta hljóta allt að vera leikmenn eða hvað?
Vissulega borga álverin lítið fyrir hverja einingu rafmagns, það er slæmt og það er gjaldgengt viðhorf að betra hefði verið að sleppa mörgum þeim virkjunum sem selja áliðnaðinum rafmagn. Uppbygging og sala á rafmagni til þeirra fóru fram á mjög svipuðum nótum og leiknar eru við kynningu á möguleikanum til sölu á rafmagni til útlanda. En það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn: málið snýst ekki bara um orkusölu og viðskiptabækur orkuseljenda heldur þá atvinnu og hagsæld sem orkusalan skapar í tekjum af atvinnurekstri við “úrvinnslu orkunnar”. Hér á landi. Um 5000 manns hafa atvinnu af áliðnaði hérlendis (www.samal.is) og segja má að þær verksmiðjur eigi stóran þátt í uppbyggingu verkfræði sem atvinnuvegar á Íslandi, sem er stór og blómlegur.
Enginn hefur hingað til treyst sér til að andmæla því að hundur til Evrópu veldur hækkun raforkuverðs til almennings (nr. 2). Deilur og óvissa standa um meint orkutap á svo löngum sæstreng (nr. 3). Kannski er það ekki nema 10-20%. Það er þó ekki mergur málsins, því áhættan er gríðarleg í svona stóru verkefni, áhætta sem íslenskur almenningur þarf hugsanlega að taka á sig.
Þorbergur hefur ekki bent á hvaða virkjanakostir það eru sem á að nýta til raforkusölu til útlanda (nr 4). Hvað þá hver umhverfiskostnaðurinn verði, virkjanir, línulagnir (þetta er ansi mikil orka, gott að hafa línuna frá Fljótsdal til Reyðafjarðar í huga), breytingar á árfarvegum o.m.fl. sem þarf að vega og meta á móti. Það er vert að hafa í huga að ferðamennska sem byggir á íslenskri náttúru er trúlega orðin stærsti atvinnuvegur landsins og mun, með áframhaldandi þróun, bera höfuð og herðar yfir aðra atvinnuvegi, m.a. þá er byggja á orkuvinnslu í íslenskri náttúru.
Sú staðhæfing að gott sé að eiga orku til uppbyggingar á Íslandi stendur óhögguð, m.a. fyrir fiskiskipaflotann, en líka aðra fjölbreytta atvinnustarfsemi, t.d. gagnaver o.m.fl. (nr. 5). Hárrétt hefur reynst að sífellt fleiri banka á dyrnar og óska eftir orku sem notuð yrði hér á landi – en orkan virðist bara ekki vera tiltæk.
Vissulega nota menn ýmis brögð við framleiðslu og sölu á raforku í Evrópu til að skapa hagnað(nr. 6). En það breytir litlu um það sem hér er sagt.
Þorbergur nefnir að annmarkar kunni að vera á útflutningi rafmagns um sæstreng, en er þó viss um að almenningur á Íslandi muni græða mikið á fyrirtækinu. Nú er það svo að engin trygging er fyrir því að hagnaðurinn, verði hann einhver, lendi í vasa almennings, það hefur hagsaga þessarar aldar greypt í minni okkar.