Olafur Arnalds - soil scientist - www.moldin.net
  • Moldin.net Ólafur Arnalds
  • Mold - Soils
    • Íslensk mold
    • The Icelandic soil
    • Jarðvegskort - Soil map of Iceland
    • Heimildir - References
  • The Soils of Iceland
    • Chapters - Abstracts
  • Ástand lands - Land condition
    • Ástandsritið
    • Loftslag og mold - rit
    • Að lesa og lækna landið
    • Land literacy
    • Heimildir - References
  • Rof, sandar og ryk - Erosion / Aeolian / Dust
    • Jarðvegsrof á Íslandi
    • Soil Erosion in Iceland
    • Dust prediction / rykspá
    • Sandarnir
    • The Aeolian Environment
    • Birds and dust
    • Erosion and Aeolian References
  • Nytjaland - AUI Farmland Database
    • About the database
    • Gróðurhula landsins
    • Nytjaland references
  • Frost
    • Ísnálar
  • Landnýting og ferðamál
    • Skógartröll
    • Beit, ástand og loftslag
    • Teigsskógur
    • Hugsjónafólk og náttúra
    • Almenningar
    • Stúlkan í skóginum
    • Jarlhettur og beitin
    • Lúpína í eyðifjörðum
    • Landmannalaugar
  • Sauðfé og beit
    • Beit, ástand og loftslag
    • Ljósglæta í þoku sauðfjárstyrkja
    • Heildargreiðslur
    • Á röngunni
    • Beit og ástand lands
    • Staða sauðfjárframleiðslu
    • Beit - Afneitun vanda.
  • Lífið / The life
    • Soil poems
    • Geislavirkni og dansandi leir / Dancing clay
    • Egg og öld vistheimtar
  • OA Skrif - Publications
    • Books and peer reviewed papers
    • Other publications, reports etc
  • Blogg - Blog
  • Um ÓA - About OA
    • CV
    • Ættfræðin - stutt

"Jarðvegsfræðingurinn"

25/2/2015

 
Þorbergur Steinn Leifsson hefur sett hér inn einar þrjár athugasemdir um grein mína um orkusölu til útlanda.  Það gerði hann einnig með skrifum í Fréttablaðið þegar greinin mín kom út  og eru athugsemdirnar hans eru að stofni til sú grein. Ég sá enga ástæðu til að svara honum þá.  Langar að benda honum á að auðvelt er að setja tengla í slíkar greinar í athugasemdum og óþarfi að kópíera þær inn í athugasemdakerfi.  Ég hef verið erlendis undanfarið og ekki haft tök á að sinna þessum athugasemdum fyrr en nú.  

Þess ber að geta að athugasemdir á þessum síðum mínum falla niður að einhverjum tíma liðnum.  Síðan www.moldin.net er ný og ég á eftir að taka ákvörðun um hvernig ég muni haga þessu kerfi í framtíðinni.  

Tónninn í athugasemd (grein) Þorbergs er nokkuð hofmóðugur, en sem betur fer eru flestir þeir verkfræðingar sem ég þekki og fjalla um virkjanir, og þeir eru margir, lausir við slíka framkomu.  Hann gefur til kynna að “Hinn ágæti jarðvegsfræðingur” sé “leikmaður”.  Og að ekki sé “skrítið þó leikmönnum skriki fótur og því umræðan  um orkumál” sé “almennt mjög ómarkviss og lítt upplýsandi og engar tæknilegar forsendur liggja fyrir um þetta tiltekna mál”.  Gott að Þorbergur treystir sér til að vita svona miklu betur án þess að “neinar tæknilegar forsendur liggi fyrir um þetta tiltekna mál”. 

Þeir sem árum saman hafa hrærst innan Rammaáætlana um virkjanakosti (þeirra á meðal ég), sem í raun er gríðarlega mikil en oft vanþökkuð vinna við mat á virkjanakostum, með tilheyrandi upplýsingamiðlun og fræðslu, lestri skýrslna um verkfræði, náttúrfræði, umhverfisáhrif, hagræna þætti og áhrif á landnýtingu, ferðum á vettvang og umræðum á meðal nefndarmanna sem samanlagt hafa breiðan faglegan bakgrunn: þetta hljóta allt að vera leikmenn eða hvað?

Vissulega borga álverin lítið fyrir hverja einingu rafmagns, það er slæmt og það er gjaldgengt viðhorf að betra hefði verið að sleppa mörgum þeim virkjunum sem selja áliðnaðinum rafmagn.  Uppbygging og sala á rafmagni til þeirra fóru fram á mjög svipuðum nótum og leiknar eru við kynningu á möguleikanum til sölu á rafmagni til útlanda.  En það þýðir ekki að stinga höfðinu í sandinn: málið snýst ekki bara um orkusölu og viðskiptabækur orkuseljenda heldur þá atvinnu og hagsæld sem orkusalan skapar í tekjum af atvinnurekstri við “úrvinnslu orkunnar”.  Hér á landi.  Um 5000 manns hafa atvinnu af áliðnaði hérlendis (www.samal.is) og segja má að þær verksmiðjur eigi stóran þátt í uppbyggingu verkfræði sem atvinnuvegar á Íslandi, sem er stór og blómlegur.

Enginn hefur hingað til treyst sér til að andmæla því að hundur til Evrópu veldur hækkun raforkuverðs til almennings (nr. 2).  Deilur og óvissa standa um meint orkutap á svo löngum sæstreng (nr. 3).  Kannski er það ekki nema 10-20%.  Það er þó ekki mergur málsins, því áhættan er gríðarleg í svona stóru verkefni, áhætta sem íslenskur almenningur þarf hugsanlega að taka á sig.  

Þorbergur hefur ekki bent á hvaða virkjanakostir það eru sem á að nýta til raforkusölu til útlanda (nr 4).  Hvað þá hver umhverfiskostnaðurinn verði, virkjanir, línulagnir (þetta er ansi mikil orka, gott að hafa línuna frá Fljótsdal til Reyðafjarðar í huga), breytingar á árfarvegum o.m.fl. sem þarf að vega og meta á móti.  Það er vert að hafa í huga að ferðamennska sem byggir á íslenskri náttúru er trúlega orðin stærsti atvinnuvegur landsins og mun, með áframhaldandi þróun, bera höfuð og herðar yfir aðra atvinnuvegi, m.a. þá er byggja á orkuvinnslu í íslenskri náttúru. 

Sú staðhæfing að gott sé að eiga orku til uppbyggingar á Íslandi stendur óhögguð, m.a. fyrir fiskiskipaflotann, en líka aðra fjölbreytta atvinnustarfsemi, t.d. gagnaver o.m.fl. (nr. 5).  Hárrétt hefur reynst að sífellt fleiri banka á dyrnar og óska eftir orku sem notuð yrði hér á landi – en orkan virðist bara ekki vera tiltæk.

Vissulega nota menn ýmis brögð við framleiðslu og sölu á raforku í Evrópu til að skapa hagnað(nr. 6).  En það breytir litlu um það sem hér er sagt.

Þorbergur nefnir að annmarkar kunni að vera á útflutningi rafmagns um sæstreng, en er þó viss um að almenningur á Íslandi muni græða mikið á fyrirtækinu.  Nú er það svo að engin trygging er fyrir því að hagnaðurinn, verði hann einhver, lendi í vasa almennings, það hefur hagsaga þessarar aldar greypt í minni okkar. 

Þorbergur Steinn Leifsson
1/3/2015 02:53:36 pm

Þakka Ólafi fyrir þessi svör og ábendingu um að tónninn í greininni hafi verið nokkuð hofmóðugur, sem ekki er gott.

Ólafi finnst það eflaust hluti af hofmóðugheitunum að ég skuli kalla hann leikmann þrátt fyrir að hann hafi unnið mikið við mat á umhverfisáhrifum og mati á hagrænum þáttum virkjana sem mér var reyndar vel kunnugt um. Afsökun mín er þó sú að ég taldi að þessi grein fjallaði ekki um einstakar virkjanir eða mat á þeim, nema kannski liður 4, heldur um lagningu sæstrengs sem yrði bæði lengsti og lægi niður á meira dýpi en áður hefur verið gert í heiminum, og samtengingu tveggja mjög ólíkra raforkukerfa sem að mínu mati gætu haft mikil og jákvæð samlegðaráhrif. Í þeim málum eru allir leikmenn enda gríðarlega tæknilega erfitt og flókið mál þar til fjölmargir sérfræðingar hver á sínu sviði hafa greint vandamálin og lagt á þau mat þannig að aðrir geti kynnt sér og dregið heildarmyndina saman. Athugasemdir mínar voru fyrst og fremst gerðar til að sýna frammá hve margar hliðar væru á þessu máli og hversu mikilvægt væri að sérfræðingar skoðuðu þetta miklu betur þannig að við leikmennirnir gætum myndað okkur skoðun, byggða á sem bestum upplýsingum. Upphaflega greinin var mjög skýr og málefnalega sett fram og hvert atriði rökstutt, og því afar freistandi að gera athugasemdir við hana.

Varðand það sem Ólafur fjallar um í svarinu er ég alveg sammála honum að mikilvægi álveranna nær langt út fyrir orkuverðið. Ég er einnig sammála að raforkuverð til almennings muni hækka, en ekki að lífskjör almennings muni versna við það. Ólafur horfir hinsvegar framhjá helstu ábendingu minni (6) um að ekki sé endilega víst að það verði flutt út mikil nettó orka um sæstrenginn. Bretar eru fyrst og fremst á höttunum eftir sveigjanlegri orku og stundum er offramleiðsla þar og þá gæti verið hagstætt að flytja inn orku til Íslands um strenginn og safna í lónin á meðan. Því væri hugsanlega nægjanlegt að setja upp meira afl í þegar byggðum virkjunin og umhverfisáhrifin því aðallega þau að minna vatn færi um yfirföll síðsumars, sem hefði eflaust neikvæð áhrif einhversstaðar en jákvæð áhrif á laxveiðar bæði í Blöndu og Jökulsá á Dal.

Það eru hinsvegar mörg ef í þessu öllu og það er ekki rétt hjá Ólafi að ég sé „viss um að almenningur á Íslandi muni græða mikið á fyrirtækinu“ Ég er langt í frá viss um það en tel hinsvegar mjög áhugavert að kanna það og hef rökstutt það með þessum athugasemdum. Ólafur telur sig hinsvegar geta fullyrt að „hugmyndin sé galin“ án frekari athugana. Það erum við mjög ósammála. Við erum hinsvegar alveg sammála að tryggja þarf að almenningur fái allann arðinn af auðlindunum og þar hræða sporin í hagsögu síðustu aldar.


Comments are closed.

    Ólafur Arnalds

    Náttúrufræðingur og prófessor

    Archives

    April 2015
    February 2015
    January 2015
    October 2014

    Categories

    All

    RSS Feed

Powered by Create your own unique website with customizable templates.