
UMSÖGN UM BÚVÖRUSAMNING,
sent á atvinnuveganefnd Alþingis 27 mái 2016.
Undirritaður er fylgjandi stuðningi við matvælaframleiðslu í landinu, ekki síst út frá byggðarlegum sjónarmiðum. Sumar byggðir landsins búa við mikil landgæði og eru jafnframt mjög háð sauðfjárframleiðslu vegna þess að tækifæri á öðrum sviðum eru takmörkuð. Markmið samningsins (1.gr) eru um margt ásættanleg, en það er mikill ljóður á samningnum að þessum markmiðum sér ekki stað í útfærslu hans.
1. Gripagreiðslur
Frumvarpið miðar við gripagreiðslur (sbr. 8.gr). Fallið hefur verið frá slíkri aðferðafræði víðast um heiminn, m.a. í Evrópu, enda leiðir þessi aðferð mjög oft til offramleiðslu sem tengist ekki þörfum fyrir framleiðsluna eða ástandi lands sem nýtt er til framleiðslunnar. Gripagreiðslur eru andstæðir umhverfissjónarmiðum. Auðvelt er að sýna hvernig þessi aðferðafræði leiðir til fjölgunar sem getur orðið fullkomlega stjórnlaus, en bæði reynsla og vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á slík tengsl. Hér að neðan (innsk: ofan á þessari síðu) er dæmi með tilvísun í einfalda töflu. Gerum ráð fyrir tveimur búum, sem bæði búa með 100 ær og eina milljón kr í styrk samtals og hlýtur þá hvort um sig 500 þús kr í styrk. Annað búið ákveður að fjölga sauðfé í 200 (í kjölfar samnings um gripagreiðslur). Styrkgreiðslur nema þá (ár 2) 666 þús kr á Bú 1, en 333 þús kr á Bú 2 (hefur lækkað, en heildarupphæð er sú sama). Hér verður veruleg tekjuskerðing hjá Búi 2, sem neyðist til að fjölga búfénaði til þess að vega upp á móti tekjuskerðingunni. Því fjölgar Bú 2 fénu, nú hafa bæði bú 200 fjár og jafna styrki, 500 þús kr hvort (ár 3).
Niðurstaðan er að fjölgað hefur um helming, heildarfjöldi fjár fer úr 200 í 400 ær en styrkjagreiðslur eru þær sömu. Þekktur vítahringur sem fylgir gripagreiðslum. Vitaskuld er hér um ýkt dæmi að ræða en það sýnir engu að síður í hnotskurn hvað gerist. Yfirgnæfandi líkur er fyrir að fé muni fjölga verulega verði af þessum samningi. Það er fullkomlega glórulaust að samþykkja samning sem leiðir til fjölgunar sauðfjár á Íslandi því að: A) enginn markaður er fyrir þessari aukningu á framleiðslunnar, 33-37% er flutt út í dag með margra milljarða styrk frá almenningi; B) fjölgunin er óháð umhverfislegum aðstæðum, haglendi og ástandi landsins. Slík aðferðafræði er beinlínis umhverfisfjandsamleg.
2. Offramleiðsla og 15-20 milljarða greiðsla með neyslu erlendis
Talið er að 33-37% framleiðslunnar sé fluttur út í dag. Ekki er þörf fyrir meira dilkakjöt innanlands, þar sem framleiðslan hefur verið að dragast saman eins og meðfylgjandi graf ber með sér. Með fjölgun fjár og minnkandi neyslu heima fyrir mun útflutningurinn fljótlega ná um 50% framleiðslunnar. Af hverju ættu íslenskir skattborgarar að greiða niður lúxusmatvöru ár erlendum markaði? Þessar greiðslur gætu hæglega numið 15-20 milljörðum (samningur hljóðar upp á 5 milljarða á ári). Rétt er að leggja á það áherslu að ekki er þak á þessari framleiðslu ólíkt því sem haldið hefur verið fram í opinberri umræðu, aðeins er talað um að taka upp býlisstuðning aukist framleiðslan umfram 10% í frumvarpinu/samningnum (gein 15.3).
Þessi framleiðsluaukning, ef af verður, sem er líklegt, mun að stórum hluta verða á landi sem hefur verið lýst óhæft til beitar.
3. Stefnumörkun og þarfir
Hér er um gríðarlegar fjárþarfir og greiðslur að ræða. Engu að síður stendur mikill styr um sauðfjárframleiðslu í landinu og ekki hefur verið tekið undir kröfur fagfólks og fagstofnana um að laga framleiðsluna að landgæðum, m.a. með friðun illa gróinna afrétta, sem helst eru að finna á gosbeltinu (Sjá grein undirritaðs á visir.is, birt á http://www.moldin.net/staetha-sauethfjaacuterframleiethslu.html með tenglum í ýmsar heimildir). Ekki er minnst á haga eða umhverfið í kaflanum um svæðisbundinn stuðning. Hafa verður í huga að framleiðsla lambakjöts hefur hæsta kolefnisspor kjötframleiðslu og umframframleiðsla gengur gegn umhverfisstefnu landsins og þeim skuldbindingu sem fylgja aðild að ýmsum umhverfissamningum Sameinuðu þjóðanna.
- Það er í raun ótrúlegt að þessi samningur geri ekki ráð fyrir meiri aðlögun að gæðum landsins en raun ber vitni. Þetta er öfugmæli við umhverfisstefnu allra ríkisstjórna og stefnu íslensku þjóðarinnar almennt.
- Landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar er í raun orðin að tæki til að afsaka ranga nýtingu á auðnum og rofsvæðum landsins (sjá meira hér neðar).
- Nauðsynlegt er að skilgreina þörf fyrir framleiðsluna og laga hana að neyslu innanlands.
- Skilgreina þarf hvar stuðningurinn er mikilvægastur. (8. gr. er fjarri því að ná slíkum markmiðum)
- Skilgreina þarf hvar lítil eða engin nauðsyn er á slíkum stuðningi, þar sem atvinnutækifæri eru nóg önnur.
- Í mörgum tilfellum getur stuðningur verið mjög hamlandi fyrir fjölbreytta uppbyggingu atvinnuvega í dreifbýli, m.a. með því að koma í veg fyrir lóðir og pláss fáist fyrir aðra starfsemi sem og íbúðarhúsnæði – þar sem uppkaup á framleiðslurétti/kvóta (og innlausn á sýslu- og ríkisjörðum til handa sveitarfélaga fyrir aðra uppbyggingu) væri mun skynsamari notkun á fjármunum fyrir framtíð dreifbýlissamfélaga.
4. Um gæðastýringu
Landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar (4. gr.) hefur bætt landnýtingu hérlendis upp að vissu marki en virkar samt ekki þegar kemur að stóru álitamálunum sauðfjárbeitar og ástandi lands. Verstu svæðin eru beitt áfram. Í raun er meira og minna er öll framleiðsla vottuð, m.a. á auðnum og rofsvæðum. Lög og reglugerðir um gæðastýringu (sem og beitarmál almennt samkvæmt Landgræðslulögum) eru úrelt og virka ekki. Bændur sem beit gott land í sinni eigu finnst gæðastýringin draga taum skussanna (MS ritgerð við H.Í.) Fyrir þessu hafa verið færð rök, ítrekað af fagmönnum og Landgræðslu ríkisins. Á meðan er engin vörn í gæðastýringunni þegar kemur að fjölgun fjár og tilflutningi í framleiðslunni.
Lokaorð
Samningur um starfskilyrði sauðfjárræktar er afar umdeildur, m.a. á meðal bænda, sem margir hverjir hafa bent á þau rök sem hér hafa verið talin. Einn helsti sérfræðingur landsins á sviði sauðfjárræktar til margra áratuga skrifaði grein um skort á framtíðarsýn við samningsgerðina og þar stendur m.a. : „Stuðningur er fluttur frá svæðum með mest landgæði yfir til þeirra sem slakar standa“ og ennfremur: „Í 5. gr. Samningsins birtist einn ótrúlegur fortíðardraugur á svið. Þar er fjallað um gripagreiðslur.....“ (Jón V. Jónmundsson, Morgunblaðið 6. apríl 2016).
Samningurinn, verði hann samþykktur, er stórslys frá umhverfisfræðilegu sjónarmiði, hugsanlega einn versti gjörningur stjórnvalda í umhverfismálum um áratugaskeið. Ennfremur leiðir hann til gríðarlegs fjárausturs (milljarðatugur í það minnsta) til að greiða kjöt ofan í neytendur á erlendri grundu. Um það mun ekki ríkja nein sátt, sem leiðir til neikvæðrar umræðu sem skaðar framleiðslu og hag þeirra bænda sem búa við góð beitilönd.
Neysla dilkakjöts sígur niður á við, óháð fjölgun landsmanna og ferðamanna. Heimild: Þórunn Pétursdóttir; Um 20 kíló á mann. Kjarninn: http://kjarninn.is/skodun/2016-01-15-um-20-kilo-mann/
Heimildir um skaðleg áhrif gripagreiðsla (og yield payments). Það er mikið til.
Myers, N.; Kent, J. (2001). Perverse subsidies: how tax dollars can undercut the environment and the economy. Washington, DC: Island Press. ISBN 1-55963-835-4.
Robin, S.; Wolcott, R.; Quintela, C.E. (2003). Perverse Subsidies and the Implications for Biodiversity: A review of recent findings and the status of policy reforms (PDF). Durban, South Africa: Vth World Parks Congress: Sustainable Finance Stream.
Portugal, L. (2002). "OECD Work on Defining and Measuring Subsidies in Agriculture". The OECD Workshop on Environmentally Harmful Subsidies, Paris, 7–8 November 2002.
OECD (2003). "Perverse incentives in biodiversity loss" (PDF). Working Party on Global and Structural Policies Working Group on Economic Aspects of Biodiversity.
Sjá einnig harðorðar umsagnir Sveins Runólfssonar o.fl. á vef Alþingis (Atvinnuveganefnd).