Olafur Arnalds. Soil and environmental scientist
  • Moldin.net Ólafur Arnalds
  • Mold - Soils
    • Íslensk mold
    • The Icelandic soil
    • Jarðvegskort - Soil map of Iceland
  • Mold ert þú - Bók
    • Mold ert þú - kaflar
  • The Soils of Iceland
    • Chapters - Abstracts
  • To Read the Land
  • OA Skrif - Publications
    • Books and monographs
    • Peer reviewed papers
    • Other publications, reports etc
  • Ástand lands - Land condition
    • Ástandsritið
    • Loftslag og mold - rit
    • Að lesa og lækna landið
    • Land literacy
  • Rof, sandar og ryk - Erosion / Aeolian / Dust
    • Jarðvegsrof á Íslandi
    • Soil Erosion in Iceland
    • Dust prediction / rykspá
    • Sandarnir
    • The Aeolian Environment
    • Birds and dust
    • Erosion and Aeolian References
  • Frost
    • Ísnálar
  • Náttúruvernd
    • Hvílum hakann
    • Að flúga á tré í Öskjuhlíð
    • Á móti framförum? (Þokan)
    • Auðkúluheiði - in memoriam
    • Skógartröll
    • Beit, ástand og loftslag
    • Hugsjónafólk og náttúra
    • Almenningar
    • Stúlkan í skóginum
    • Jarlhettur og beitin
    • Lúpína í eyðifjörðum
    • Landmannalaugar
  • Sauðfé og beit
    • Beit, ástand og loftslag
    • Ljósglæta í þoku sauðfjárstyrkja
    • Heildargreiðslur
    • Á röngunni
    • Beit og ástand lands
    • Staða sauðfjárframleiðslu
    • Beit - Afneitun vanda.
  • Lífið / The life
    • Soil poems
    • Geislavirkni og dansandi leir / Dancing clay
    • Egg og öld vistheimtar
  • Um ÓA - About OA
    • Um Ólaf Arnalds
    • CV
    • Ættfræðin - stutt
Picture

Hvílum hakann

Fyrir um 60 árum renndi ég fyrir silung í Þjórsárdal á sumrin.  Ég man tilfinninguna þegar fiskur nartaði í öngulinn í Fauskásalæminu og átökin við stóran urriða í Rauðá neðan við Stöng.  Við vorum ein í heiminum fyrir daga virkjana og túrista.  

Stangveiði er í senn íþrótt og holl útivist sem hreyfir við taug frumbjargarinnar og stundum svo sterkt að úr verður ólæknandi della sem getur náð heljartökum á vænsta fólki.  En svo varð ekki um mig - ég fór á sjóinn og sá nóg af fiski næstu sumur. En það eru svo sem margar dellurnar sem geta gripið fólk, t.d. áhugi á fuglum (sekur), golfi, gíturum (sekur), fótbolta, tattúum, hrútadómum og skógrækt.  

Skógrækt er afskaplega sérkennileg „della“, ekki síst ræktun barrtrjáa, fóðruð með hugsjón náttúruverndar, rekin af ákefð með ríkulegum ríkisstyrkjum úr vösum almennings. Vissulega geta barrtré veitt gott skjól og minnkað loftmengun í þéttbýli og það er mikilvægt þjóðin verði sjálfbærari með eigin viðarframleiðslu á vel skilgreindum stöðum og með nothæfum viði.  En hömlulaus viðarskógrækt um alla koppagrundu er ekki sjálfsögð, því hún hefur víðtæk og oft ansi neikvæð áhrif á náttúru landsins. 

Birkiskógur og mólendi er sú náttúra sem okkur ber að endurheimta á svæðum á borð við Þjórsárdalinn. Votlendi breiðist einnig út á sjálfu sér þar sem grunnvatn stendur hátt og sést þess víða stað.  Þetta er það náttúrufar sem þarna var fyrir áður en vistkerfi dalsins urðu eyðingu að bráð.  En önnur varð raunin.  Á þeim tíma sem við renndum fyrir fisk í Þjórsárdalnum fyrir einum mannsaldri eða svo kom Skógrækt ríkisins í dalinn  og risti rásir upp og niður brekkurnar og plantaði síðan barrviðum í beinar raðir í hlíðarnar vestan Dímons, í skjóli gullfallegs kjarrlendis sem óx þar fyrir og var tekið að breiðast út. 

Skógræktarmennirnir eru enn þá að.  Þeir „sveifla haka og rækta nýjan skóg“ rétt eins og heimurinn sé sá sami og var fyrir 100 árum, þegar hugsjón mótaðist af því að endurheimta landgæði í landi sem hefur þolað meiri hnignun vistkerfa en flest önnur í veröldinni.  Fögur hugsjón, en í upphafi gerði hún ekki greinarmun á náttúrulegum vistkerfum og manngerðu umhverfi, og hálfdrukknaði í draumnum um viðarframleiðslu.  „Nýr skógur“ hjá þessu fólki er því ekki birkiskógurinn sem eitt sinn þakti Þjórsárdalinn – með öllum sínum örnefnum um skóg og  kolagerð svo sem „Fauskásar“, „Fagriskógur“ og „Núpsskógur“.  Öðru nær.

Skógræktarfólk sem hæst lætur vill helst ekki önnur tré  en þau sem eru fljótsprottin og af erlendum uppruna.  Skiptir þá engu þótt sum þeirra séu ágeng, ógni lífbreytileika og geti haft afskaplega neikvæð áhrif á umhverfið, en um leið verið heldur lélegur viður til brúks.  Þessum trjám er iðulega plantað í plógför, tré fyrir tré, með ærnum tilkostnaði, einlægt á þeim stöðum þar sem birkið er að breiðast út af sjálfu sér. Til hvers?
 
Við Fauskásalæmið í Þjórsárdal, þar sem við renndum fyrir silung forðum daga, hefur verið plantað fjölbreyttu samsulli af erlendum trjátegundum.  Kannski fyrir tilstuðlan erlendra „kolefnisbindingarpeninga“ sem eru að verða æði vafasamt silfur sem goldið er fyrir náttúru landsins. Og hér, í Þjórsárdalnum, á svæði sem áður hafði ríkt samkomulag um að láta birkið um endurheimtina, af eigin rammleik eða með smá hjálp, eiga þessir fljótsprottnu risar ekkert erindi.  
Heljargreipar skógræktaráhugans eru svo rammar að afli að helst átti að fórna flugöryggi fyrir nokkur barrtré í Öskjuhlíð og nú eiga vatnsból höfuðborgarsvæðisins að víkja fyrir ágangi trjásóttarinnar.  Sérpöntuð álit, svona eins og Samtök fiskframleiðenda kalla nú eftir í hrönnum, breyta því ekki að vitaskuld eiga hagsmunir vatnsverndar að ganga fyrir öllu. Drykkjarvatn höfuðborgarbúa er auðlind sem ekki verður metin til fjár.  Það er kominn tími til að staldra aðeins við áður en skógræktarhugsjónin snýst upp í andhverfu sína, hakinn getur verið hættulegt verkfæri. 


​Ólafur Arnalds
Fyrrverandi prófessor
Greinin birtist í Heimildinni í júní 2025.
Proudly powered by Weebly