Ástand lands og hrun íslenskra vistkerfa - PDF
Ástand lands og hrun vistkerfa er meðal mikilvægustu áskorana mannkynsins sem og endurheimt vistkerfa. Málefnið er nátengt annarri vá: losun gróðurhúsalofttegunda og óðahlýnun Jarðar. Í „Ástandsritinu“ er fjallað um hvaða mælikvarðar eru notaðir til að meta ástand lands byggt á alþjóðlegum aðferðum. Aðferðirnar eru studdar fjölda ljósmynda af landi í mismunandi ástandi. Mikilvægt er að fjalla um ástand lands og landhnignun í breiðu samhengi, m.a. með skilningi á undirliggjandi hvötum, tegund landnýtingar og ferlum hnignunar, sem síðan leiða til tiltekins ástands lands. Fjallað er um landbúnaðarstyrki sem dæmi um undirliggjandi hvata landhnignunar, m.a. hér á íslandi. Þróun í viðhorfum til ástands lands er skýrð, með áherslu á áhrif beitarnýtingar. Þá fá svokölluð „heilkenni breyttra grunnviðmiða“ („saumdaunasýki“) nokkurt rúm: hvernig hver kynslóð tekur slæmu ástandi lands sem sjálfsögðum hlut án þess að gera sér grein fyrir hvernig ástandið hefur breyst - með afar alvarlegum afleiðingum fyrir vistkerfi landsins. Hrun íslenskra vistkerfa fær sérstaka umfjöllun og heimildir um breytingarnar eru raktar. Mismunandi áhrif landnýtingar á vistkerfi landsins síðasta árþúsundið eru m.a. skýrð á grunni þátta er móta þanþol vistkerfa. PDF
Með árunum hefur mér fundist æ mikilvægara að koma þekkingu um jarðveg og ástand landsins til skila til almennings. Ritið er liður í því og er ætlað öllum þeim sem vilja skilning sinn á náttúru landsins, jafnt almenningi, skólafólki sem fagfólki.