Olafur Arnalds - soil scientist - www.moldin.net
  • Moldin.net Ólafur Arnalds
  • Mold - Soils
    • Íslensk mold
    • The Icelandic soil
    • Jarðvegskort - Soil map of Iceland
    • Heimildir - References
  • The Soils of Iceland
    • Chapters - Abstracts
  • Ástand lands - Land condition
    • Ástandsritið
    • Loftslag og mold - rit
    • Að lesa og lækna landið
    • Land literacy
    • Heimildir - References
  • Rof, sandar og ryk - Erosion / Aeolian / Dust
    • Jarðvegsrof á Íslandi
    • Soil Erosion in Iceland
    • Dust prediction / rykspá
    • Sandarnir
    • The Aeolian Environment
    • Birds and dust
    • Erosion and Aeolian References
  • Nytjaland - AUI Farmland Database
    • About the database
    • Gróðurhula landsins
    • Nytjaland references
  • Frost
    • Ísnálar
  • Landnýting og ferðamál
    • Skógartröll
    • Beit, ástand og loftslag
    • Teigsskógur
    • Hugsjónafólk og náttúra
    • Almenningar
    • Stúlkan í skóginum
    • Jarlhettur og beitin
    • Lúpína í eyðifjörðum
    • Landmannalaugar
  • Sauðfé og beit
    • Beit, ástand og loftslag
    • Ljósglæta í þoku sauðfjárstyrkja
    • Heildargreiðslur
    • Á röngunni
    • Beit og ástand lands
    • Staða sauðfjárframleiðslu
    • Beit - Afneitun vanda.
  • Lífið / The life
    • Soil poems
    • Geislavirkni og dansandi leir / Dancing clay
    • Egg og öld vistheimtar
  • OA Skrif - Publications
    • Books and peer reviewed papers
    • Other publications, reports etc
  • Blogg - Blog
  • Um ÓA - About OA
    • CV
    • Ættfræðin - stutt
Lúpína nemur land í breiðu af eyrarrós í Vöðlavík.  Myndin er tekin árið 2010.  Fróðlegt væri að skoða stöðuna núna.  Mynd: Ása L. Aradóttir

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um lúpínu og hve áberandi hún er að verða í landslaginu.  Margt bendir til að hún fimm til tífaldi útbreiðslu sína á hverjum 20 árum.  Semsagt veldisvísandi aukning á dreifingu.  Ég birti eftirfarandi grein í Austurglugganum árið 2010.  Mér finnst hún eiga ansi vel við núna.


Lúpínan og fegurð austfirskra eyðibyggða

Austfirðir eru tímælalaust meðal fegurstu svæða landsins, með sínum djúpu fjörðum, tignarlegum fjallstindum,  litríku megineldstöðvum og fjölbreyttu strandsvæðum.  Eyðifirðirnir eru sveipaðir dulúð og djúpstæðri fegurð þar sem heilir sagnbálkar fylgja hverju leiti; arfleið kynslóðanna.  Þetta land hefur hver kynslóðin af annarri nýtt sér til viðurværis áður en sú næsta tók við búinu.   Og þótt hljóðnað hafi í sumum fjörðunum hefur núverandi kynslóð sínar skyldur sem fyrr gagnvart landi og komandi kynslóðum.  Það eru mikil verðmæti sem Austfirðingum er falið í fjörðum og víkum á borð við Vöðlavík og Viðfjörðinn. 

Á umliðnum öldum var gengið nærri landinu á þessum slóðum, kannski ekki síst á fyrri hluta síðustu aldar.  Þá fjölgaði sauðfé og beit jókst, svo víða sjást ennþá merki um ofbeit sem var – en nú vex gróðri óðfluga ásmegin og hann hylur æ betur sárin.   Og mörgum hefur runnið til rifja ástandið og einhverjir fundið sig knúna til að hjálpa til við endurreisn landkosta með landbótum af ýmsu tagi.  Meðal þeirra ráða sem beitt hefur verið við uppgræðslu landsins er sáning lúpínu eins og víða annars staðar á landinu. 

Lúpínan er innflutt tegund, sem hefur víða reynst ágeng.  Hún þrífst afar vel í víkum og fjörðum Austfjarða og er tekin að breiðast þar ört út.  Það er tilefni þessa pistils að mig langar að biðja ykkur Austfirðinga að huga aðeins nánar að þessari þróun.  Svo dæmi séu tekin, þá er engin þörf á lúpínu til landbóta í Vöðlavík og Viðfirði.  Þar nægir að aflétta beitarálaginu, eins og nú hefur verið gert, og náttúrulegur gróður breiðist út og eflist.  En nú á hann í samkeppni við lúpínuna, sem mun á næstu árum og áratugum verða æ ríkari þáttur í náttúrfari svæðisins ef ekkert verður að gert. 

Einhverjum kann þó að finnast þetta æskileg þróun.  En stöldrum aðeins við.  Er það hlutverk núlifandi kynslóðar að skila lúpínufjörðum og víkum til þeirra næstu?  Höfum við sem nú lifum umboð til þess?  Eða er kannski hægt að gera þá kröfu til okkar að við skilum af okkur náttúrufari sem einkennt hefur svæðið síðustu árþúsundin, en í þó mun betra ástandi en það var um miðja síðustu öld? 

Austfirðingum er trúað fyrir ómetanlegum náttúruverðmætum sem felast í fjörðum og víkum svæðisins.  Frekari útbreiðsla lúpínu er mikið og áberandi inngrip í náttúrfar eyðibyggða svæðisins.  Innflutt ágeng tegund á tæpast erindi í náttúruperlur Austfjarða, frekar en t.d. á Hornströndum þar sem landeigendur o.fl. gera sitt besta til að koma í veg fyrir útbreiðslu hennar.  Er kannski kominn tími til að spyrna við fótum í eyðibyggðum Austfjarða?  Til dæmis með liðsinni vaskra unglinga  sem gætu slegið lúpínuna og hamlað útbreiðslu hennar einhverja daga á ári?  Það tæki mörg ár, svita og tár, en væri erfiðisins virði.

Með vinsemd og þökk fyrir að fá að heimskækja og njóta þessa fallega svæðis;

Powered by Create your own unique website with customizable templates.