Stúlkan í skóginum
Á stórri ráðstefnu um endurheimt vistkerfa í Manchester í águst (2015) voru allnokkur erindi frá þróunarlöndum þar sem fjallað var um mjög illa farið land vegna beitar. Meginþema í mörgum verkefnum var að fá heimamenn til þess að friða viðkvæmasta landið, a.m.k. tímabundið, fyrir beit. Fá viðmið sem sýnir hvernig landið getur litið út og framleitt. Þar sem skilyrði eru góð getur landið gróið saman á tiltölulega stuttum tíma sem færir heimamönnum sýn á hvað annað land er í slæmu ástandi. Bandarískum vísindamanni sem starfar fyrir Carter stofnunina tókst að fá heimamenn á svæði syðst í Eþíópíu til að friða bút af illa förnu landi sem skorti verulega á gróðurhuluna. Til þess var gerð girðing úr þyrnóttum runnum. Viti menn, landið greri upp á einu ári. En þá tók ríkasti bóndi svæðisins sig til og hóf beit á friðaða landinu í trássi við aðra, í krafti valds síns og auðs. Kunnugleg saga?
Á öðru svæði í Kenya leituðu heimamenn eftir stuðningi til að fá fleiri borholur eftir vatni, því vatnsból voru tekin að þorna en landið umhverfis er gríðarlega illa farið (að mestu auðnir). Vísindamenn komust þó fljótt að það vantað fyrst og fremst gróður á yfirborðið til að minnka afrennsli og tap á vatninu út af svæðinu. Með því að að draga tímabundið úr nýtingunni (sem er oft ansi torvelt á svæðum sem þessum vegna flókinna félagsaðstæðna) var unnt að auka gróðurinn. Gróðurhulan kom í veg fyrir afrennsli, úrkoman tók að síast inn í moldina og nýtast gróðrinum (vistkerfið tekið að virka aftur) og þar með tók grunnvatnsborðið einnig að hækka. Sögur hliðstæður þessari eru til víða um heiminn. Og þær eru fjarska sambærilegar við það sem hér þekkist. Auðnin íslenska nýtir ekki vatnið.
Það erindi sem hlaut þann heiðurshress að vera lokaerindi ráðstefnunnar fjallaði um endurheimt náttúruskóganna í Skotlandi, m.a. með frumkvöðlastarfi samtakanna „Trees for Life“. Í Skotlandi var náttúrulegum skógi nánast útrýmt af stórum svæðum, m.a. birkiskóginum og hinum upprunalega skoska „Caledonian“ skógi. Ofbeit sauðfjár og dádýra var að stórum hluta um að kenna. Skógarnir eru gríðarlega mikilvæg vistkerfi í Skotlandi sem annars staðar, ekki síst fyrir líffjölbreytileika, vatnsmiðlun og aðra þjónustu vistkerfa. Endurheimt skóga er því mjög mikilvæg þar sem útbreiðslan er lítil (öðru máli gegnir þar sem land er meira og minna komið undir skóg og það er mikilvægt að rugla ekki þessum aðstæðum saman). Tilraunir Skota í Hálöndunum minna um margt á viðleitni Íslendinga til að auka skógarhulu í landinu. Birkið er mikilvæg landnámstegund fyrir framvindu skóganna í Skotlandi eins og hér, en því var nánast eytt að fullu með sauðfjárbeit á síðust öldum, eins og hérlendis. Hið fallega en viðkvæma birki er stundum nefnt „Stúlkan í skóginum“ í Skotlandi („Lady of the Woods“) m.a. í heiti á hinu magnaða málverki John MacWhirter frá 1876. Skýringartexti með málverkinu þar sem það er til sýnis í listasafninu í Manchester hljóðar svo í lauslegri þýðingu:
“Stúlkan í skóginum” er skáldanafn birkis. Hinar viðkvæmu sveigðu greinar, hinn silfur-hvíti börkur og smágerð lauf ljá því kvenlega ímynd í augum Viktoríutímans. Það er algengasta náttúrulega trjátegundin í Skotlandi.
Það eru ekki mörg tré í skóginum á myndinni. Ofbeit sauðfjár og dádýra leiddi til skógareyðingar í Hálöndunum á 18. og 19. öld.
Birki er landnemategund sem býr í haginn fyrir aðrar hægvaxta trjátegundir á borð við eik og furu. Hlíðin er í haustbúningi og einangrað tré á myndinni gefur birkinu þunglyndislegt yfirbragð: skógurinn er setinn sauðfé, landneminn mun lifa sem einmana tré.”
Ó, hve kunnugleg er þessi saga!
Höfundarréttur: Málverkið tilheyrir Manchester City Gallery, ljósmyndin er fengin af listavef BBC/Public Catalouge Foundation)